Ferill 774. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1894  —  774. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um aðildarumsókn að Geimvísindastofnun Evrópu.


     1.      Er unnið að aðildarumsókn fyrir Íslands hönd að Geimvísindastofnun Evrópu af hálfu ráðherra?
    Árið 2017 tilnefndi mennta- og menningarmálaráðuneyti tvo fulltrúa í starfshóp utanríkisráðuneytis um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu. Í leiðbeiningum sem Geimvísindastofnun Evrópu sendi utanríkisráðuneyti var óskað eftir því að það ráðuneyti sem bæri ábyrgð á málefnum geimsins tilnefndi tengilið íslenskra stjórnvalda við stofnunina til að hefja undirbúning samstarfssamnings. Í framhaldinu óskaði utanríkisráðuneyti eftir því að mennta- og menningarmálaráðuneyti tæki við ábyrgð á málinu þar sem starfsemi stofnunarinnar var talin á sviði vísinda, menntamála og rannsókna.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur undanfarin misseri verið í samskiptum við sérfræðinga Geimvísindastofnunar Evrópu og skipulagt upplýsinga- og kynningarfundi með þeim til að afla frekari upplýsinga um stofnunina og hugsanlegt samstarf við Ísland. Á fundum með fulltrúum stofnunarinnar hefur m.a. komið fram að ferlið við að gerast fullur aðili að Geimvísindastofnun Evrópu getur tekið um tíu ár og er kostnaður hár. Stofnunin hefur því lagt til sem fyrsta skref að vinna að gerð samstarfssamnings. Gerð slíks samstarfssamnings getur tekið um eitt ár og felur ekki í sér kostnað fyrir íslensk stjórnvöld. Í tengslum við gerð samstarfssamnings þurfa íslensk stjórnvöld að velja samstarfssvið. Þau eru geimferðir, fjarkönnun, geimflutningar, siglingar, vöktun jarðar og fjarskipti. Þá eru töluverð tengsl milli starfsemi stofnunarinnar og nokkurra samstarfsáætlana Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í, eins og European Space Programme og Horizon Europe.

     2.      Hefur faglegur ávinningur af aðild verið metinn? Ef svo er, hver er hann helstur?
    Faglegur ávinningur hefur ekki verið metinn en fyrir liggja ítarlegar kynningar Geimvísindastofnunar Evrópu. Þá hefur ráðuneytið átt samtöl við og kynnt sér greiningar Auðnu – tæknitorgs, Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar og Geimvísindastofnunar Íslands.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra vinna að málinu það sem eftir lifir kjörtímabilsins?
    Auk funda með sérfræðingum Geimvísindastofnunar Evrópu hefur ráðuneytið haft samráð við Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem hefur m.a. umsjón með þátttöku Íslands í geimáætlun Evrópusambandsins.
    Í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er ekki tilgreint hvaða ráðuneyti fer með málefni geimsins. Aðild Íslands að alþjóðlegum stofnunum og samtökum er á ábyrgð utanríkisráðuneytis, sbr. g-lið 10. gr. úrskurðarins.
    Þar sem samstarf við og hugsanleg aðild að Geimvísindastofnun Evrópu snertir málefnasvið nokkurra ráðuneyta (samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis) er mikilvægt að tryggja frekara samstarf og samhæfingu ráðuneytanna á þessu sviði.
    Vinna þarf frekari greiningu á ávinningi af samstarfi við Geimvísindastofnun Evrópu og huga að tilnefningu tengiliðar íslenskra stjórnvalda við stofnunina vegna hugsanlegs samstarfssamnings. Mikilvægt er að viðkomandi ráðuneyti sem að framan eru skilgreind komi að undirbúningnum auk Rannsóknamiðstöðvar Íslands vegna hlutverks hennar og samlegðar þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins. Þar sem samstarfssamningur yrði mögulega fyrsta skref að fullri aðild að stofnuninni er mikilvægt að utanríkisráðuneyti sé upplýst um þau skref sem tekin verða.
    Að öðru leyti er vísað til svars utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn um sama efni á 151. löggjafarþingi (þskj. 1293, 557. mál).